Af ávöxtunum …

Ég hef verið að dunda mér við að taka myndir af nytjatrjám í Reykjavík þegar þau hafa orðið á vegi mínum að undanförnu. Augu mín hafa opnast fyrir því hvað flóran í borginni er fjölbreytileg, en svo skilst mér líka að með betra veðurfari og fleira áhugasömu garðyrkjufólki, hafi ávaxtatrjám og öðrum nytjaplöntum verið að fjölga. Einhvernvegin hélt ég lengi vel að epli gætu ekki vaxið hér á norðurslóð; „það hljóta að vera til eplatré, í öðrum löndum“ söng Nýdönsk, en nú veit ég betur og hef séð fjöldan allan af skemmtilegum berjum og ávöxtum sem virðast þroskast vel.

Hér fyrir neðan er kirsuberjatré sem vinir mínir í Fossvogi plöntuðu og hefur gefið helling af berjum. Fyrir utan það hvað það er fallegt.

Í Vesturbænum rakst ég á þetta eplatré, sem ég hef fyrir satt að beri nokkur epli á sumri þótt ungt sé og veigalítið. Það verður spennandi að skoða það næstu sumur.

Hindber eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér, og það kom mér því þægilega á óvart þegar einn af nágrönnum mínum benti mér á það sem hann kallaði ofvirkan hindberjarunna í garðinum sínum á Högunum. Ég kíkti við og viti menn, allt vaðandi í safaríkum, stórum og fallegum hindberjum. Með hans leyfi smakkaði ég nokkur og svei mér ef þetta eru ekki bestu hindber sem ég hef smakkað.

Á sama stað er líka ferskjutré, sem er myndarlegt og með fjölda ferskna á greinum sínum. Ferskjurnar voru að vísu ekki alveg þroskaðar og ég smakkaði ekki á þeim. Kannski er búið að tína allar þær sem voru fullþroskaðar? Tréð er að minnsta kosti fallegt, og ber greinilega ríkulegan ávöxt.

Sjálfur er ég svo mikill byrjandi í þessu að ég er hvorki með nýstárlega berjarunna í garðinum mínum né ávaxtatré. En ég byrjaði í vor að rækta kryddplöntur og örlítið af grænmeti í stofuglugganum hjá mér, eins og ég sagði frá hér. Uppskeran hefur verið misjöfn; grænmetisplönturnar voru ekki í nógu stórum pottum til að ná að bera stóra hlunka einsog kúrbít, og ég var ekki kominn með aðstöðu til að setja plönturnar út í mold. Það kemur næsta sumar. Þó hefur tómataplantan gefið af sér fjöldan allan af litlum tómötum. Þeir eru á stærð við kirsuberjatómata og mjög góðir.

Kryddplönturnar hafa hinsvegar vaxið stjórnlaust, og ég hef varla haft undan að nota þær. Salvían hefur komið sér vel í fljótlega pastarétti með smjöri, við tínum basilikuna upp í okkur, sömuleiðis steinseljuna og þar frameftir götunum. Þetta er mjög skemmtilegt dund og næsta skref er að koma þeim plöntum sem þola að vera úti, í gott skjól næsta vor, þannig að þær sjái um sig sjálfar.

Ég ítreka að lokum þá skoðun mína að mér finnst að Reykjavíkurborg ætti að auka gróðursetningu ávaxtatrjáa þegar borgin er að gera upp opin svæði inni í hverfunum. Við erum hvort sem er að setja niður ýmiskonar tré og það færir aukinn lit í borgina að hafa eitt og eitt tré ávaxtatré eða berjarunna. Á afmælishátíð Lynghagaróló á dögunum fékk ég það hlutverk sem formaður hverfisráðs Vesturbæjar að færa leikvellinum gjöf frá borginni, sem verður einhverskonar ávaxta eða berjatré. Það verður gaman að sjá það vaxa og dafna í Vesturbænum.