Lífið er saltfiskur

Það er alveg rétt sem Þór Sigfússon segir í blaðagrein sinni í Morgunblaðinu í dag, að í ýmsum útrásarfyrirtækjum býr ótrúlega mikil þekking og sérhæfni sem glapræði væri að horfa framhjá, þótt óorði hafi verið komið á útrás. Í þeim fjölmörgu hugmyndum sem voru í farvatninu þegar spilaborgin hrundi, felast ýmiskonar tækifæri. Í fyrirtækjunum sem ætluðu að hrinda þeim í framkvæmd vinnur fólk sem kann sitt fag, tók þátt í útrásarævintýrinu og hefur lært mikilvæga lexíu.

Áfram þurfum við að ráðast í útrás með hefðbundnar útflutningsvörur okkar. Ég sá að Gordon Ramsey var að kenna fólki að elda þorsk í laugardagsblaði The Telegraph. Hann sagði aðdáendum sínum að nota ekkert annað en tiltekinn kyrrahafsþorsk. Ég man eftir Gordon Ramsey í einhverjum bæklingi frá Kaupþingi í Bretlandi og vona að þessi smekkur hans á þorski tengist ekki hrakförum íslenska bankakerfisins. Vonandi er orðspor okkar ekki orðið svo slæmt að menn hætti að meta okkar frábæru útflutningsvörur.

Við þurfum að flytja út vörur. Fleiri en bara fisk og ál. Útflutningsfyrirtæki og hið opinbera þurfa að greiða götu þeirra sem eru með góða vöru eða þjónustu til útflutnings. Þessir aðilar munu eiga mis erfitt uppdráttar, Björk lendir í minni vandræðum en bankar. En við sitjum öll í súpunni og þurfum að hífa okkur upp úr henni með samstilltu átaki. Ef við gerum það munu öll okkar góðu fyrirtæki geta nýtt þekkingu sína til að gera strandhögg erlendis.