Blaðamennskan

Eftir borgarstjórnarfund í gær fór ég á vertshús með nokkrum félögum mínum úr meirihlutanum. Þar hittum við blaðamann frá Financial Times. Það var mjög athyglisvert. Þegar ég og félagi minn úr borgarstjórnarflokknum höfðum kynnt okkur fyrir honum sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sagði hann: Og í hvoru liðinu eruð þið? Við hváðum og þá hló hann strax hæðnislega og sagði okkur ekki að vera með þessi látalæti, og spurði aftur: Hvort eruð þið með forsætisráðherra eða á móti? Við sögðum honum að hann væri á miklum villigötum í þessum kenningum sínum, því það væru engin slík lið. Hann hélt nú ekki og sagði að evrópusambandsaðild væri að kljúfa flokkinn í herðar niður. Ekki áttaði ég mig á því í „hvoru liðinu“ hann teldi forsætisráðherra vera.

Ég veit ekki hvort skrif FT eru öll unnin á þessum forsendum. En það er alveg ljóst að þessi blaðamaður vildi bara sem safaríkastar fréttir, burtséð frá sannleikanum. Ég veit hinsvegar að sumir þessara blaðamanna sem hingað eru komnir til að skrifa fréttir af kreppunni eru vonsviknir yfir því að það skuli ekki vera meiri dramatík. Fréttamyndirnar af tómum vöruhillum eða mótmælagöngum hafa sem betur fer látið á sér standa. Við skulum vona að það verði þannig áfram.