Offita Íslendinga

Bæði Rúv og Stöð 2 hafa flutt ágætar fréttir af offitu Evrópubúa í dag og í gær. Fréttirnar eru byggðar á nýrri skýrslu frá OECD sem sýnir að offita hefur meira en tvöfaldast í Evrópu og að Íslendingar eru í hópi feitustu þjóða.

1. Bretland 24,5% offita meðal fullorðinna
2. Írland 23%
3. Malta 22,3%
4. Ísland 20,1%

Þetta eru ömurlegar tölur. Frændur okkar Danir, Svíar og Norðmenn eru hinum megin á ásnum, í hópi þeirra ríkja þar sem offita er minnst. Þar viljum við vera, og ættum að vera.

Þessir líkamar þættu ekki óvenjulegir á Íslandi í dag

Mig langar til að leggja eitt orð í þennan umræðubelg. Það er orðið borgarskipulag.

Ég er í hópi þeirra sem telja að gott borgarskipulag geti bætt lýðheilsu og þar með talið dregið úr offitu. Tengslin á milli offitu og borgarskipulags eru ekki alltaf skýr, enda fjölmargar aðrar breytur sem útskýra offitu, ekki síst menntun. En það segir sig sjálft að borg sem skipulögð er þannig að eini valkostur fólks til að ferðast á milli staða, er að keyra í bíl, hvetur ekki til hreyfingar. Borg sem er hinsvegar byggð þétt og fólk á auðvelt með að ganga eða hjóla til vinnu, skóla eða þjónustu, ef það svo kýs, hvetur til hreyfingar.

Þannig er það staðreynd að vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík (þar sem byggðin er þéttust) fara um það bil 50% íbúanna einir í bíl á leið til og frá vinnu, en í ýmsum öðrum hverfum Reykjavíkur (fjær atvinnukjörnum) er þetta hlutfall í kringum 90%. Íbúar síðarnefndu hverfanna eiga ekki marga góða kosti þegar þeir þurfa að komast til og frá vinnu. Þeir velja því bílinn. Tugir þúsunda íbúa þurfa því að eyða tæplega 40 mínútum á dag í ferðalög til og frá vinnu, sem kostar 17% af heimilisútgjöldunum, brennir upp dýrmætum tíma, kostar Reykjavíkurborg hundruð milljóna í viðhaldi gatnamannvirkja og kemur í veg fyrir að þessir borgarbúar geti nýtt sér daglegt amstur til nauðsynlegrar hreyfingar. Til að breyta þessu þurfum við að þétta byggðina, gefa þeim Reykvíkingum sem bætast í hóp okkar á næstu áratugum kost á að búa nálægt atvinnukjörnum og skólum og byggja upp mannvænlegt borgarumhverfi þar sem gaman er að vera á ferli.

Ég tek fram að borgarskipulag er aðeins einn af fjölmörgum þáttum sem hafa áhrif á lýðheilsu borgaranna. En það er tvímælalaust þáttur sem við þurfum að taka með í reikninginn ef við ætlum okkur að komast af þessum óyndislega lista hér að ofan.