Metró, sporvagn, strætó?

Morgunblaðið er með ágæta umfjöllun um neðangjarðarjarðarlestir í blaðinu í dag. Eyjan gerði í kjölfarið frétt um málið, sem lesa má hér.

Það er fagnaðarefni að í Háskól Íslands sé fólk að velta þessum hlutum fyrir sér, eins og fram kemur í fréttinni. Mér finnst Háskóli Íslands leggja furðu lítið af mörkum til borgarsamfélagsins, sem hann er þó hluti af. Skólinn þarf auðvitað að taka miklu virkari þátt í því hvernig við byggjum upp gott borgarsamfélag, og hann þarf líka að ganga á undan með góðu fordæmi í skipulags-, samgöngu og umhverfismálum. Það gerir hann því miður ekki, þótt vonandi sé að rofa eitthvað til í þeim efnum. Frumkvæði jarðlestahópsins í raunvísindadeildinni, er jákvætt skref.

Sjálfur er ég ekki sannfærður um að jarðlestir séu framtíðin fyrir Reykjavík. Að vísu eru slíkar samgöngur arðbærari og skynsamlegri framkvæmd en flest af þeim jarðgöngum sem kjördæmaþingmenn úti á landi hafa barist fyrir á undanförnum árum, en ólíklegt er að þingmenn Reykjavíkur muni berjast fyrir sambærilegum fjármunum til höfuðborgarinnar. (Þótt yfir 60% landsmanna búi á höfuðborgarsvæðinu, rennur innan við 15% af vegafé til þess svæðis). Sjálfur myndi ég vilja að hærra hlutfall vegagerðarpeninga rynni til Reykjavíkur, en efast um að við myndum eyða þeim í jarðlestir, að svo komnu máli.

Ég held að það sé miklu skynsamlegra að efla strætókerfið, en hugsa um leið fyrir því að í nýjum hverfum, svo sem Örfirisey og Vatnsmýri, geti sporvagnar þjónað á stærstu leiðunum. Allt tal um ‘léttlestarvæðingu’ höfuðborgarinnar er innantómt, að mínu mati. En þegar ný hverfi byggjast, geta frá upphafi verið ákveðnar forsendur í skipulagi, sem íbúarnir þekkja og sækjast í, og borga jafnvel fyrir í íbúðaverði. Þannig yrðu færri bílastæði á íbúð í Örfirisey og Vatnsmýri, en gengur og gerist í borginni almennt. Í staðinn fengju íbúarnir framúrskarandi almenningssamgöngur. Sporvagnaleið gæti legið úr Örfirisey (en þar og á Slippasvæðinu geta búið 10-15 þúsund manns) framhjá Hörpunni, í gegnum miðborgina, út í Vatnsmýri (15-20 þúsund manna byggð) með viðkomu nærri sjúkrahúsinu og við Háskólana tvo. Þetta gerist vitaskuld ekki fyrr en byggist í báðum þessum hverfum, og yrði þá hluti af heildaruppbyggingu hverfanna, rétt eins og skólar og gangstéttir.  Ég tek fram að ég kasta þessari hugmynd fram til umræðu, og nákvæm kostnaðar- og ábatagreining þarf auðvitað að fara fram áður en ákvarðanir verða teknar.

Gróf teikning af hugsanlegri leið sporvagns milli Örfiriseyjar og Vatnsmýrar.

Þétt byggð er forsenda þess að almenningssamgöngur gangi vel upp. Í fréttinni um jarðlestir er tekið dæmi af borginni Rennes í Frakklandi. Þegar tölur um borgirnar tvær eru skoðaðar, sést að í Rennes búa um tvöfalt fleiri en í Reykjavík. Samt er landsvæðið sem borgin stendur á, aðeins hluti af landi Reykjavíkur. Raunar sýnist mér að þéttbýlið í Reykjavík (þá tek ég ekki með Kjalarnesið eða heiðarnar í austri) sé álíka stórt og landið undir Rennes í Frakklandi. Þannig má segja að íbúar Rennes og Reykjavík búi á jafn stóru landsvæði, en fyrir hvern einn Reykvíking, eru tveir Rennes-verjar.

Markmið okkar ætti því að vera skýrt: Hættum að skerða lífsgæði okkar og falleg útivistarsvæði með því að þenja byggðina sífellt meira út. Byrjum strax að þétta, með því að byggja á gömlum iðnaðar- og atvinnusvæðum. Á þeim komast fyrir allir þeir sem eiga eftir að fæðast í, eða flytja til Reykjavíkur næstu 50 árin. Þegar við verðum komin dálítið áleiðis við þetta, getum við farið að tala um sporbundnar samgöngur, hvort sem er ofan- eða neðanjarðar.